Forsætisráðherra: „Ég held að ungt fólk eigi mikið erindi inn í stjórnmálin“

Katrín segir ríkisstjórnina meðvitaða um að mögulega þurfi að endurskoða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þar sem staðan sé jafnvel verri en margur vill meina. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Katrín segir ríkisstjórnina meðvitaða um að mögulega þurfi að endurskoða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þar sem staðan sé jafnvel verri en margur vill meina. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

„Það fer ekki nógur tími í að ræða og hugsa um framtíðina,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Katrínu nýverið og ræddi við hana um málefni ungs fólks og líðandi stundar.

„Það á örugglega við um alla stjórnmálamenn að maður fer inn í þetta með framtíðina í huga. Svo fer 90% af tímanum í það að bregðast við einhverju sem kemur upp. Það er alveg ótrúlegur tími sem fer í það að bregðast við,“ segir Katrín þegar hún er spurð hvort stjórnvöld þurfi ekki að líta í auknum mæli til framtíðar.

„Eitt af því sem við gerðum í fyrra var að stofna framtíðarnefnd sem er tilraunaverkefni  núna í samstarfi forsætisráðuneytis og Alþingis. Minn draumur er að þetta verði föst nefnd á Alþingi þar sem þingmenn koma saman og stíga aðeins út úr vettvangi dagsins.

Þar eru þeir ekki að tala um pólitík dagsins í þingsalnum heldur að skoða til dæmis tæknibreytingar eða loftslagsbreytingar og hvert við viljum stefna. Þannig höfum við aðeins verið að horfa á það hvernig við getum tryggt betur að við séum að tala um framtíðina á einhverjum vettvangi án þess að sú umræða snúist upp í umræðu um eitthvert málefni dagsins.“

Aðgerðir í loftslagsmálum hvati til ríkisstjórnarsamstarfs

Loftslagsmálin brenna á ungu fólki þessa dagana og hafa háskólanemendur ekki látið sitt eftir liggja í Loftslagsverkfalli sem hefur verið haldið á Austurvelli síðustu þrettán föstudaga. Verkfallið er haldið til þess að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Katrín segir að það hafi tvímælalaust haft áhrif á sig.

„Ég hef fundað með einhverjum þeirra sem hafa staðið að verkföllunum hér á landi og mig langar að efna til frekara samtals þessa hóps og stjórnmálanna og það er í undirbúningi. Ég held að þetta séu mjög mikilvæg skilaboð til stjórnvalda.“

Katrín hefur lengi látið sig loftslagsmálin varða. „Mér finnst gríðarlega mikið hafa breyst síðan fyrstu lögin um loftslagsmálin voru sett árið 2012 þegar við [Vinstri græn] vorum með Samfylkingunni í ríkisstjórn og Svandís Svavarsdóttir var umhverfisráðherra. Það höfðu ekki margir áhuga á þessu á þeim tíma.

Árið 2015 fékk ég að njóta þeirra forréttinda að sækja Parísarfundinn fyrir hönd Alþingis sem fulltrúi míns flokks sem var auðvitað mjög merkilegur fundur. Þar náðist  samkomulag sem búið var að reyna að ná fyrr á mörgum fundum. Nú eru auðvitað blikur á lofti eftir að Bandaríkin sögðu sig frá Parísarsamkomulaginu.“

Katrín segir gríðarlega vitundarvakningu hafa orðið í þessum efnum á síðustu fjórum árum. „Hér á Íslandi hefur hún verið enn öflugri á þessu síðasta ári. Ein aðalástæða þess að við förum inn í þessa ríkisstjórn er vegna þess að við sáum fram á tækifæri til þess að ná fram aðgerðum í loftslagsmálum og kynntum aðgerðaráætlun í loftslagsmálum síðastliðið haust sem er fyrsta fjármagnaða áætlun sinnar tegundar hér á Íslandi.“

Aðgerðaáætlunin verður líklega endurskoðuð

Þó að aðgerðaráætlunin sé umfangsmikil hefur hún verið gagnrýnd fyrir að vera ekki nægilega róttæk og að ekki sé gripið til aðgerða tafarlaust. Um það segir Katrín: „Á meðan fréttirnar halda áfram að hlaðast inn af því að vandinn sé enn alvarlegri en talið var árið 2015 þá erum við mjög meðvituð um það að við munum þurfa að endurskoða þessa áætlun.

Við erum búin að vera svolítið lengi á þeim stað að við tölum um allt sem þarf að gera og síðan virðist það vera svo óyfirstíganlegt að á endanum gerist ekkert. En það gengur ekki lengur. Við verðum að byrja einhvers staðar og taka á þessu verkefni þannig að við leysum eitt verkefni í einu.“ Katrín bætir því við að nauðsynlegt sé að vera meðvituð um að það muni þurfa meira til. „Það skiptir miklu máli að stjórnvöld byrji, að þetta sé ekki allt lagt á einstaklinga.“

Dagur Hjartarson, rithöfundur, vakti athygli á því nýverið að nýtt kísilver í Helguvík sem er búið að fá starfsleyfi muni auka losun Íslands um 10%. Katrín segir að það sé rétt að það auki heildarlosun en hins vegar falli það ekki undir beinar skuldbindingar Íslands um losun frá stóriðju og frá Íslandi.

„Það sem við losum hér á landi fer annars vegar inn á okkar reikning sem þjóðar og hins vegar inn í samevrópskt losunarbókhald og það á til dæmis við um stóriðjuna og flugið. En allt er þetta sama andrúmsloftið. Í okkar aðgerðaráætlun settum við fyrst markmið um það hvað við gætum gert inni á þjóðarreikningnum. Síðan erum við með samevrópska kerfið þar sem losun frá fluginu og stóriðjunni eru inni. En það er alveg á hreinu að við þurfum líka að grípa til aðgerða þar.“

Engar nýjar ákvarðanir um stóriðju hafa verið teknar í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar. Katrín segir þó ýmis jákvæð teikn á lofti. „Ég ávarpaði álfyrirtækin nýverið og hvatti þau til að stefna að kolefnishlutleysi. Sjálf eru þau núna að slá nýjan tón og eru reiðubúin að skoða hvort þau geti aukið bindingu á móti sinni losun, út frá til dæmis verkefnum eins og Carbfix verkefninu þar sem verið er að dæla koltvísýringnum niður í berg uppi á Hellisheiði. Það hefur sýnt alveg ótrúlegan árangur í bindingu. Af minni hálfu er það alveg á hreinu að við getum ekki horft á þjóðarbókhaldið einangrað, eins og aðrir þættir séu ekki hluti af vandanum.“

Tekjulágt ungt fólk hafi setið eftir

Aðgerðir í málefnum ungs fólks eru nú meðal annars byggðar á nýjum gagnagrunni, tekjusagan.is, en þar kemur meðal annars í ljós að ungt fólk hefur setið eftir hvað varðar þróun ráðstöfunartekna. Katrín segir að sú umræða hafi ekki fengið næga athygli.

 „Þetta var mjög mikilvægt að mínu mati, gagnagrunnurinn gaf okkur færi á að sjá að þessi hópur hefur setið eftir og þaðan koma áherslur ríkisstjórnarinnar í kringum lífskjarasamninginn, að hækka barnabætur, lengja fæðingarorlof og fara í alls konar aðgerðir sem tengjast tekjulágu ungu fólki.“

Katrín segir að aðgerðir í nýsköpun ættu að sömuleiðis að koma ungu fólki vel. „Svo er það stóra myndin sem skiptir ungt fólk máli þegar kemur að því hvar það vill búa og lifa í framtíðinni og eitt af því sem við ætlum að gera er að fjárfesta  meira í nýsköpun, setja fjármuni úr Landsvirkjun inn í nýsköpun á Íslandi til þess að efla þann þátt.“

Hagkerfi Íslendinga, sem hvílir á ferðaþjónustu, fiski og áli þarf að endurskoða, að mati Katrínar. „Ef við ætlum að halda áfram að vera til þurfum við að spá í það hvort við ættum ekki að fjölga þessum stoðum. Auðvitað er heilmikil nýsköpun inni í sjávarútvegi og áliðnaði en það þarf að efla þennan þekkingariðnað sem byggir á menntun og rannsóknum og snýst um að skapa fjölbreyttari fyrirtæki, fjölbreyttara atvinnulíf og það að fólk geti skapað sín eigin tækifæri.

Mér finnst það vera eitt stærsta hagsmunamál ungs fólks á Íslandi, þær aðgerðir sem stjórnvöld eru að grípa til núna sem munu hafa áhrif á atvinnu- og efnahagsumhverfi framtíðarinnar. Ég held að þetta sé dæmi um ákvörðun sem er góð út frá efnahagslegu tilliti, því hún fjölgar stoðunum, en hún er líka góð út frá loftslagstilliti því þarna erum við að beina fjármunum inn í þekkingariðnaðinn og sendum þau skilaboð að við ætlum að byggja í auknum mæli á þeirri stoð.“

Ungt fólk eigi brýnt erindi í stjórnmálin

Það er þó einnig mikilvægt að ungt fólk láti til sín taka í stjórnmálum svo litið sé í auknum mæli til framtíðar, að sögn Katrínar. Ungu fólki þyki þó stjórnmálaumhverfið gjarnan fráhrindandi. „Ég fór inn í stjórnmál sem þingmaður árið 2007. Umhverfið hefur breyst mikið síðan þá. Ég er búin að horfa á fólk koma og fara. Sjálf er ég í hópi þaulsetnustu átta eða níu núverandi þingmanna lýðveldisins sem er svolítið öðruvísi en var. Þegar ég kom inn var þingið stofnun fólks sem hafði verið þar mjög lengi.

 Að einhverju leyti er þetta mjög breytt en ég held líka að fólk brenni hratt upp í svona umhverfi, ekki síst með tilkomu samfélagsmiðla sem voru einfaldlega ekki til þegar ég byrjaði á þingi. Ég var ekki komin á Facebook þegar ég byrjaði á þingi. Maður komst í fréttir tvisvar á ári eða eitthvað svoleiðis. Nú gerist þetta hraðar og ég held að fólk átti sig á því að kannski voru allir að tala illa um mann áður-  en núna les maður það bara á netinu,“ segir Katrín og hlær.

Katrín leggur þó áherslu á að stjórnmál séu tilvalinn vettvangur til að hafa áhrif. „Auðvitað er þetta ekki alltaf eitthvað spennandi starfsumhverfi en það er mín skoðun að stjórnmál séu frábært starf þrátt fyrir þessa galla. Það er enginn annar starfsvettvangur þar sem venjulegt fólk eins og ég fær tækifæri til að kynnast fólki úr öllum geirum og úr öllum kynslóðum og fær tækifæri til að kynnast jafn ólíkum málaflokkum og sjávarútvegi og sviðslistum.

Mér finnst þetta frábært starf en ég held samt sem áður að marga ói við þessu óvægna umhverfi og starfið virki fráhrindandi. Sem er miður því ég held að ungt fólk eigi mikið erindi inn í stjórnmálin og það er kannski í raun og veru þannig að við erum ekki nógu dugleg að segja hvað er magnað að njóta þeirra forréttinda að starfa í stjórnmálum því það eru vissulega forréttindi. Ég myndi segja að þetta sé mikið tækifæri fyrir fólk til að hafa áhrif á samfélagið. Ég hefði ekki endilega átt von á því að vera í þessu starfi, hvað þá að hafa haft þau áhrif sem ég hef fengið að hafa.“

Hola íslenskra fræða verður að lyftistöng

Talið berst að Húsi íslenskra fræða sem gjarnan hefur verið kallað Hola íslenskra fræða af þeim sökum að ekkert hefur staðið á reitnum sem byggja átti nema djúp hola í mörg ár. Katrín tók skóflustungu að húsinu árið 2013. Hún segist virkilega ánægð með að húsið muni loks rísa, en framkvæmdir ættu að hefjast bráðlega. „Mér fannst alltaf mjög mikilvægt að það yrði haldið áfram með þetta verkefni og þó það hafi orðið þetta hlé þá held ég að þetta geti orðið heilmikil lyftistöng fyrir Háskólann, íslenska tungu og menninguna almennt.

Ég hef auðvitað oft talað um þetta í þinginu, frá því að ég tók þessa skóflustungu. Mér fannst ekki góð ákvörðun að hætta við þetta á þeim tíma sem það var gert en ég vona að það að halda áfram verði farsæl ákvörðun núna.“

Konur ekki frjálsar ef vikufjöldi hamlar

Mikla athygli vakti þegar forsætisráðherra lýsti yfir þeirri skoðun sinni nýverið að hún myndi styðja löggjöf um þungunarrof sem gerði ráð fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna um þungunarrof án takmarkana á vikufjölda.

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, þar sem rétturinn til að taka ákvörðun um þungunarrof var færður frá heilbrigðisstarfsfólki til kvennanna sjálfra og miðast við 22 vikur var samþykkt á Alþingi nýverið. Aðspurð segist Katrín þó ekki ætla að beita sér sérstaklega fyrir því að ákvæði um vikufjölda verði afnumið.

„Ástæða þess að ég hef þessa afstöðu er sú þess að ég lít svo á að þetta sé mál sem snýst fyrst og fremst um réttindi kvenna til að ráða yfir eigin líkama og að konur séu ekki frjálsar nema þær ráði yfir eigin líkama. Mér finnst að það eigi við óháð einhverjum vikufjölda. Ég er þó mjög sátt við þessa niðurstöðu og studdi að sjálfsögðu frumvarpið og á ekki von á því að á því verði gerðar breytingar.“

Þegar Katrín hóf þingstörf ætlaði hún að vera á þingi í tvö kjörtímabil. Hún stóð þó ekki við það markmið og sér ekki fyrir endann á sínum pólitíska ferli. „Það er þannig í stjórnmálunum að maður getur ekki ákveðið sjálfur hvað gerist næst. Ég alla vega brenn enn þá fyrir stjórnmálum og mér finnst enn þá spennandi að takast á við þessi verkefni. Á meðan svo er þá er ég alveg fyr og flamme en svo veit maður það að einhvern tímann kemur tími á mann og ég eftir að gera mjög margt annað í lífinu.

Ég ætla ekki að lofa neinu um það hvenær það augnablik kemur en ég hef ýmislegt að gera. Ég er með alls konar hugmyndir, meðal annars á sviði íslensku og bókmennta, alls konar ritgerðir sem mig langar að skrifa, bækur, rannsóknir og ég veit ekki hvað. Ég verð alla vega ekki verkefnalaus þegar ég hætti.“