„The most tropical destination in Iceland“

„Ég er ekki hlutlaus en ég elska þetta hostel og sé stóra hluti fyrir Student Hostel. Ég held að þetta sé algjörlega orðinn mikilvægur partur af Reykjavík og háskólasamfélaginu.“  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Ég er ekki hlutlaus en ég elska þetta hostel og sé stóra hluti fyrir Student Hostel. Ég held að þetta sé algjörlega orðinn mikilvægur partur af Reykjavík og háskólasamfélaginu.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Það er svo gaman að vera partur af einhverri upplifun hjá fólki, að vera ekki bara þak yfir höfuðið heldur að dusta glimmeri á eitthvað hjá einhverjum. Það er það sem gildir,“ segir Valgerður Anna Einarsdóttir, betur þekkt sem Vala, hostelstjóri Student Hostel.

Farfuglaheimilið er í eigu Félagsstofnunar stúdenta, FS, og er það í Gamla garði yfir sumartímann, en leigusamningur við skiptinema sem þar dvelja er gerður í níu mánuði í senn og byggingin því laus yfir sumartímann. Student Hostel opnaði árið 2017 og er nú rekið þriðja sumarið í röð.

Hönnunin á Student Hostel er virkilega falleg og upplífgandi. Þar ræður litagleði ríkjum.  Ljósmynd/Student Hostel

Hönnunin á Student Hostel er virkilega falleg og upplífgandi. Þar ræður litagleði ríkjum. Ljósmynd/Student Hostel

Byrjuðu á hlaupum

„Gamli garður var byggður 1934 og var önnur byggingin á háskólasvæðinu, næst á eftir Aðalbyggingunni. Frá árinu 1960 hefur hann alltaf verið rekinn sem hótel eða gistiheimili yfir sumartímann en þessi bygging er tilvalin í það. Honum hefur alltaf verið útvistað til utanaðkomandi aðila. Síðan urðu þeir samningar lausir og FS ákvað bara að grípa gæsina og prófa að stofna eitthvað sjálf. Ég var fengin í það með þeim og úr varð Student Hostel sem er búið að vera ótrúlega skemmtilegt verkefni,“ segir Vala.

Vala hafði þá starfað hjá FS í rúmlega hálft ár en enginn reynslumikill einstaklingur úr hótelbransanum kom inn í þróun Student Hostel. „Við byrjuðum bara svolítið á hlaupunum og lærðum með því að gera. Það er ekkert endilega besta aðferðin til að gera hlutina en þetta varð bara mjög gott og skemmtilegt sumar.“

Vill fá fleira ungt fólk til landsins

Vala segir að aðsóknin sé góð en 86 gistipláss eru á Student Hostel. „Við höfum verið í kringum 80% nýtingu frá byrjun og það stefnir í svipað núna. Til að byrja með var þetta fólk sem hafði verið á Hótel Garði sem var hérna áður. Hótel Garður var rosa númer og það var svolítil áskorun að koma til móts við gesti sem höfðu áður komið þangað með allt öðruvísi væntingar. En það gekk samt bara vel.

Svo höfum við fengið skólahópa í gegnum HÍ og það hefur færst í aukana undanfarið sem er ótrúlega gaman. Við erum með sumarskóla, jafnréttisskólann, Snorraverkefnið og síðan hafa komið alls konar skólahópar frá Bandaríkjunum og Evrópu.“

Þeir eru ófáir páfagaukarnir sem prýða farfuglaheimilið. Þeir eru þó ekki farfuglar sjálfir, enda dveija þeir á farfuglaheimilinu allt árið.  Ljósmynd/Student Hostel

Þeir eru ófáir páfagaukarnir sem prýða farfuglaheimilið. Þeir eru þó ekki farfuglar sjálfir, enda dveija þeir á farfuglaheimilinu allt árið. Ljósmynd/Student Hostel

Eins og heiti farfuglaheimilisins gefur til kynna er markhópurinn ungt fólk. „Við miðum að því að vera á viðráðanlegu verði fyrir unga fólkið, á milli 18 og 35, sem er að ferðast um heiminn en aðrir geta líka notið góðs af því, fólk sem er með fjölskyldu og svona líka. Þú þarft ekki að vera einhleypur og barnlaus til þess að gista hérna,“ segir Vala og bætir við:

„Við erum öll af vilja gerð að fá ungt fólk til Íslands. Það er erfitt að fá ungt fólk hingað þó ungt fólk flykkist í Evrópureisur. Ég væri svo mikið til í að það yrði raunhæft fyrir ungt fólk að ferðast til Íslands.“

Reykjavík fremur en Ísland

Vala leggur áherslu á mikilvægi þess að ferðafólk átti sig á möguleikum Reykjavíkur sem áfangastaðar, frekar en Íslands í heild sinni. „Ég fæ mjög gjarnan fólk hérna til mín sem notar Student Hostel sem stoppistöð. Þau koma hingað til þess að sofa og fara svo að Jökulsárlóni, ganga Laugaveginn eða Gullna hringinn.

Ég er að reyna að byggja Student Hostel upp sem vörumerki og Reykjavík upp sem áfangastað frekar en Ísland. Túristar koma gjarnan til Íslands en ekki til Reykjavíkur, þeir ætla að sjá Ísland en gera sér ekki grein fyrir því hvað þetta er stór eyja.

Eins og við segjumst ætla að kíkja til Köben um helgina þá segja fáir að þeir ætli til Reykjavíkur í helgarferð. Mig langar svo að breyta þessu hugarfari, að það sé gaman að koma til Reykjavíkur, að það sé gaman að koma á Student Hostel.“

Ljósmynd/Student Hostel

Ljósmynd/Student Hostel

Eitt sumarið fékk hún kúnna drauma sinna en þeir nutu Reykjavíkur og Student Hostel út í ystu æsar. „Í fyrra fengum við hóp af breskum gæjum. Þeir voru örugglega 12 eða 15 og þeir voru að steggja einn. Fyrsta daginn þeirra hérna er ég að vinna inni á skrifstofu og allt í einu byrja bara drunurnar um allt hostelið, það var eins og það væri jarðskjálfti hérna. Þá eru þeir nýlentir, komnir í einhvern massífan drykkjuleik uppi á háalofti í sameigninni. Ég fékk kvartanir og ég fer og tala við þá.

En málið er bara að þeir voru að hafa svo ótrúlega gaman hér. Þeir voru bara að njóta þess að vera til hérna og voru akkúrat gestirnir sem ég vil hafa. Þannig að ég vildi helst ekki fara að tala við þá áður en ég þurfti þess virkilega. Þeir hleyptu svo miklu lífi í staðinn og það var svo gaman að hafa hóp af ungum strákum sem voru bara að njóta þess að vera til og voru varla að trufla neinn. Þetta var örugglega langskemmtilegasti hópur sem ég hef haft og akkúrat túristarnir sem mig langaði að hafa hérna.“

Vala bendir einnig á að farfuglaheimilið sé ekki einungis fyrir erlent ferðafólk. „Þetta er ekki bara fyrir túrista. Þetta er líka fyrir krakka sem búa á Akureyri og langar að koma og djamma eina helgi í Reykjavík. Ef þau vilja koma til Reykjavíkur á djammið og ekki þurfa að troða sér inn á vini og vandamenn þá eru hér ódýr herbergi.

Ég væri þess vegna til í að hafa hostelið uppfullt af Íslendingum, hér gæti líka gist fjölskylda sem á enga ættingja í Reykjavík og langar bara að kíkja í H&M eina helgi. Mig langar líka að þetta sé valkostur fyrir þau. Íslendingar eiga líka að geta ferðast um sitt eigið land án þess að það sé of dýrt.“

Ljósmynd/Student Hostel

Ljósmynd/Student Hostel

Plöntur, pöddur og tígrisdýr

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er hönnun farfuglaheimilisins athyglisverð, skordýr prýða veggina og páfagaukar gægjast fram af borðum og þeim óteljandi plöntum sem fyrirfinnast á Student Hostel. Rúna Kristinsdóttir sá um hönnunina og Vala segist hafa kolfallið fyrir hönnun hennar.

„Gamli garður var tekinn í gegn á árunum 2013 og 2014 og var lokaður á meðan. Þegar hann var tekinn í gegn var mikil áhersla lögð á að gera hann upp eftir upprunalegu myndinni. Það var ekki ákveðið að breyta öllu í nýjan stíl heldur var það gert eftir því hvernig þetta var og hvernig karakter húsið er. Þegar ég kom inn fannst mér hönnunin og stemningin geggjuð.

Af því að ég er markaðsfulltrúi hjá FS og sé um að markaðssetja fyrirtækið út á við þá ákvað ég að markaðssetja Student Hostel sem „The most tropical destination in Iceland“ og við Rúna byggðum svolítið á því. Í fyrra var annað sumarið okkar og þá tókum við þemað skrefinu lengra og á sumrin erum við með hengirúm á háaloftinu og við keyptum fullt af böngsum sem eru tígrisdýr og ljón og apar og svona og erum með fullt af plöntum og kaktusum hérna inni og á veggjunum sérðu fiðrildin og pöddurnar.“

Uppbygging við Gamla garð gleðiefni

Aðspurð segir Vala að áformuð uppbygging við Gamla garð muni einungis hafa góð áhrif á Student Hostel. „Alveg frá því að það kom í ljós þá alveg skríkir í mér að vera með stærra hostel og meira framboð á herbergjum. Ekki það að ég myndi henda öllum út í nýju viðbyggingunni á sumrin.

Hvort sem það væri þannig að viðbyggingin við Gamla garð yrði á níu mánaða leigusamningi eins og Gamli garður er núna og ég fengi bara geggjað stórt hostel á sumrin eða ef þetta væru bara stúdentar og fjölskyldur sem byggju hérna þá held ég að það myndi mjög skemmtilegt andrúmsloft myndast hérna. Auðvitað yrði einhver truflun á meðan á byggingu stendur en það er bara eitthvað sem maður lætur fólk vita af.“

Móttakan í Gamla Garði.  Ljósmynd/Student Hostel

Móttakan í Gamla Garði. Ljósmynd/Student Hostel

Eins og heyrist á Völu þá er henni mjög annt um Student Hostel. „Ég er ekki hlutlaus en ég elska þetta hostel og sé stóra hluti fyrir Student Hostel. Ég held að þetta sé algjörlega orðinn mikilvægur partur af Reykjavík og háskólasamfélaginu. Við erum að taka á móti helling af skólahópum sem eru að nýta sér skólastofur á Háskólatorgi og svona og ég held að það yrði mikill missir ef Gamli garður yrði færður yfir í 12 mánaða leigusamning eða eitthvað þannig. Ég held að það beri enginn jafn mikið hagsmuni ungs fólks fyrir brjósti eins og FS og eins og Student Hostel.“

Ljósmynd/Student Hostel

Ljósmynd/Student Hostel