Loftslagsréttlæti

Á síðasta ári varð Pakistan fyrir barðinu á kröftugum monsúnrigningum og hamfaraflóðum. Á sumum svæðum var úrkoma 500 prósentum yfir meðaltali sem hafði gríðarleg áhrif á meira en 33 milljón manns, þar af voru 8 milljón manns enn heimilislaus í janúar 2023. Þetta er einungis eitt af mörgum tilfellum hamfaraveðurs sem átti sér stað um allan heim árið 2022. Rannsóknir sýna að loftslagsáhrif eru á hraðri uppleið og hafa mest áhrif á lönd í hinu hnattræna Suðri, þó að það séu einmitt löndin sem losa minnst af gróðurhúsagösum.   

Hamfarahlýnun leggst ekki jafnt á allar þjóðir, og oft finna þau sem bera minnsta ábyrgð á hnattrænni hlýnun hvað mest fyrir áhrifum hennar. Loftslagsréttlæti (e. climate justice) er hugtak sem lýsir þeim ójöfnuði sem á sér stað hvað varðar áhrif loftslagsbreytinga umhverfis hnöttinn. Með öðrum orðum, ríkasta fólk heimsins, eða um 10%, bera ábyrgð á 50% losunar á gróðurhúsagösum, á meðan fátækasta fólk heimsins, um 50%, ber ábyrgð á einungis 10% losunar.  

Frá árinu 1991 hefur mannkynið losað meiri koltvísýring út í andrúmsloftið en nokkurn tímann áður í mannkynssögunni. Losunarstuðull kolefnis, samkvæmt Milliríkjanefnd Sameinuðu Þjóðanna, er hámarksmagn koltvísýrings sem mannkyn má losa til þess að eiga enn möguleika á því að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar fari yfir 1.5 °C eða 2 °C. Eins og staðan á koltvísýringslosun er í dag, munum við fara yfir hámarkið fyrir árið 2030. Bandaríkin eru landið sem losar mest, en Kína og Rússland fylgja fast á eftir. Sagan segir okkur að þessi lönd bera ábyrgð á mun meiri losun en önnur.  

Loftslagsréttlæti snýst um félagslegan jöfnuð, mannréttindi, réttindi innfæddra, kynjajafnrétti og réttindi kynslóðanna sem á eftir okkur koma. Þróunarlönd eru að byggja upp innviði og bæta lífskjör borgara sinna, sem hefur gjarnan í för með sér aukna losun gróðurhúsagasa. En hvernig eiga þessar þjóðir að geta staðið jafnfætis þróaðri löndum þegar fáeinar, iðnvæddar þjóðir hafa nú þegar náð hámarki losunarstuðuls kolvetnis á heimsvísu?

Loftslagsréttlætishreyfingin gengur út á viðurkenningu auðugra landa á þeirri sögulegu ábyrgð sem þau sannarlega bera á kolefnislosun í ljósi þess að þau hafa nú þegar losað langtum meira en getur talist sanngjarnt. Eitt af úrræðunum til þess að stemma stigu við þessum ójöfnuði er nýr bótasjóður, en honum var komið á fót á COP27 (Loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna í Egyptalandi árið 2022). Markmið sjóðsins er að veita þeim þjóðum sem finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga fjárhagslegan stuðning. Hins vegar á enn eftir að ræða í smáatriðum hvernig sjóðurinn kemur til með að virka, hvaða þjóðir munu njóta góðs af honum og hvernig útvega skuli fjármagn.

Ef við lítum til aðstæðna nær okkur er ljóst að hlýnun á norðurslóðum hefur ágerst þrisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum á síðustu 49 árum. Landslagið breytist sífellt hraðar og aðstæður innfæddra einkennast af ofsaveðri og bráðnandi hafís. Af öllum íbúum á norðurslóðum eru innfæddir um 10% og yfir 40 þjóðernishópar. Innfæddir hafa dregið upp lífið á norðurslóðum í þúsundir ára og búa yfir fjölbreyttum menningarlegum bakgrunni, tungumálum og rótgrónu lífsviðurværi. Innfæddir lifa oft í samhljómi við náttúruna og bera djúpstæða virðingu fyrir henni, og því hafa breytingar á veðurmynstri og árstíðum skaðleg áhrif á uppskeru, efnahag, samfélag og lýðheilsu þeirra. 

Loftslagskrísan er allt í kringum okkur. Hún er nú þegar áþreifanleg. Þrátt fyrir að hafa öll átt mismikinn þátt í krísunni sem blasir nú við okkur, eigum við eitt sameiginlegt: Getuna til þess að bregðast við með umhverfið að leiðarljósi. Héðan í frá. Hvort sem viðbrögð okkar felast í breytum lifnaðarháttum, til dæmis með því að neyta minna, breyta mataræði okkar og keyra minna, eða þá að taka ákvörðun um að verða virkari meðlimir samfélagsins og fræða aðra, eigum við okkur sameiginlegt markmið: Að lifa og dafna, og sjá til þess að allt fólk á jörðinni eigi kost á því sama.

Við eigum eitt sameiginlegt:

Getuna til að bregðast við með umhverfið að leiðarljósi. Héðan í frá.

Illustration: Amber Lim