Afreksmaður á tveimur sviðum

Tónlistar- og íþróttamanninum Ara Braga Kárasyni er margt til lista lagt. Hann er áberandi í íslensku tónlistarlífi þar sem hann kemur fram bæði með sinni eigin hljómsveit, sem og með þekktu íslensku tónlistarfólki. Hann hefur einnig unnið fjöldamörg afrek í íþróttaheiminum en hann æfir frjálsar íþróttir með FH, ásamt því að sitja í íslenska landsliðinu.

Í dag er Ari Bragi, sem er 27 ára gamall, búsettur á Íslandi en hann stundaði nám við New School for Jazz and Contemporary Music í New York til ársins 2012. „Markmiðið var að fara sem fyrst út til Bandaríkjanna í nám. Þegar ég var 16 ára fór ég á sex vikna sumarnámskeið í Michigan og þá féll ég eiginlega fyrir Bandaríkjunum og ákvað að ég ætlaði að drífa mig þangað.“ Hann útskrifaðist 18 ára úr FÍH af jazz- og klassískri braut og stefndi beint á Bandaríkin. „Ég er „do-er“ og það er persónueinkenni sem ég hef haft alla ævi, eins og að flytja til Bandaríkjanna 18 ára áður en ég kláraði stúdentspróf og þvert á það sem foreldrar mínir vildu að ég gerði. Þau vildu ekki að ég færi vegna þess að ég kunni nánast ekki að setja brauð í brauðrist, en ég hugsaði að ég ætlaði að gera þetta og byrjaði að sækja um í fullt af skólum án þess að láta þau einu sinni vita. Síðan segi ég loksins við þau að ég sé kominn inn í háskóla úti og þau horfa bara á mig og segja: hvað ertu að tala um?“ Hann viðurkennir þó að það hafi verið mikil viðbrigði fyrir 18 ára dreng úr Vesturbænum að flytja til New York og þurfa að standa á eigin fótum. „Manni fannst maður þroskast um fimm ár á einum mánuði en þetta er náttúrulega æðisleg reynsla og borgin togar rosalega mikið í mig enn þann dag í dag,“ segir Ari.

Afskrifaði trompetinn

Ari Bragi er í röð fremstu trompetleikara landsins en hann fékk tónlistaráhugann beint í æð frá blautu barnsbeini. „Pabbi minn er tónlistarkennari þannig að það mætti segja að ég hafi byrjað í tónlist þegar ég var tveggja eða þriggja ára. Ég fór reglulega með pabba í tónlistarskólann, hjálpaði til og fylgdist með þegar aðrir voru í tímum. Síðan byrjaði ég að fara í lúðrasveitina og þá verður maður fljótt partur af þessu tónlistaruppeldi, en það var ekki fyrr en ég var 15 ára sem ég byrjaði að eigin frumkvæði í tónlist. Þá byrjaði ég að leita út fyrir námið sem ég var í og ýtti sjálfum mér í að gera það sem mig langaði að gera en ekki það sem ég átti að gera innan skólakerfisins.“ Athyglisvert er þó að eina hljóðfærið sem Ari Bragi var harðákveðinn í að læra ekki á var trompet. „Pabbi og bróðir hans eru trompetleikarar og þetta hljóðfæri fór alltaf svolítið í taugarnar á mér en svo verður maður bara að gefa sig á endanum. Það var rosalegt trompet-uppeldi í mér, ég hlustaði mikið á trompetspilara á heimilinu og eyrun sækjast á endanum í það sem maður þekkir.“

Íþróttir alltaf verið meðferð fyrir útrás

Þegar Ari Bragi bjó í New York æfði hann crossfit af fullum krafti meðfram skólanum en út frá því byrjaði hann að æfa spretthlaup. „Það var haldið lítið hlaupamót innan crossfitsins og ég skráði mig í allar greinarnar. Það komu strákar á mótið sem höfðu verið að keppa fyrir háskólana sína í Bandaríkjum, þeir voru með allar græjur með sér en ég bara með einhverja crossfitskó sem eru harðir og frekar glataðir í hlaup. Síðan endaði ég á því að vinna allar greinarnar á mótinu og eftir þetta þá fékk ég smá bakteríu fyrir hlaupinu.“ Ari segir tímasetninguna hafa verið góða vegna þess að þetta atvikaðist undir lok námsins, hann var á heimleið og kominn með smá óbeit á crossfit. Hann mætti á sína fyrstu frjálsíþróttaæfingu í janúar 2013 og keppti tveimur dögum seinna á Reykjavíkurleikunum. „Eftir að ég keppti á leikunum þá fannst mér þetta ekki jafn spennandi og ég hélt þetta væri, fannst þetta svolítið stíft og rótgróið allt saman. Það var verið að kalla í mig og biðja mig um að mæta á æfingar og halda áfram þannig að hægt og rólega lét ég undan. Það var síðan í janúar 2014 sem ég ákvað að taka skrefið og byrja almennilega að æfa og fór þá í æfingarbúðir til Tenerife með Haraldi Einarssyni en hann hjálpaði mér að átta mig á því út á hvað þetta sport snýst og hvað það er rosalega tæknilegt. Eftir það tók manían algjörlega við.“

Samtvinnun tónlistar og íþrótta getur verið snúin en Ari Bragi segir þessa blöndu virka ágætlega fyrir sig. „Þetta er ekkert mál líkamlega en andlega er þetta erfitt vegna þess að þetta eru tveir mismunandi heimar þegar kemur að því að „delivera“. Þú þarft að vera með svakalega opinn hug gagnvart tónlistinni, koma þér í erfiðar aðstæður og vera út á við, en í frjálsum þarftu virkilega að taka til þín það sem aðrir segja þér og líta inn á við í sjálfsgagnrýni. Þannig að það eru margir hlutir sem stangast á.“ Fyrir Ara Braga eru frjálsíþróttirnar þó ákveðin meðferð fyrir útrás og helst vel í hendur við tónlistina þó svo að það verði stundum árekstrar. „Þegar maður á að keppa og þarf svo að vera mættur upp á svið í Hörpu 40 mínútum eftir að keppnin er búin, að spila fyrir framan 1800 manns ertu kannski ekki alveg á réttum stað í hausnum – ennþá að hugsa um hlaupið, hvað fór úrskeiðis og svoleiðis,“ segir hann.

Þakklátur fyrir óþægilegar aðstæður

Að sögn Ara hafa bæði íþróttirnar og tónlistin komið mjög náttúrulega hjá honum. Hvað íþróttirnar varðar telur hann sig hafa verið heppinn með gen enda hafa allar þær íþróttir sem hann hefur komist í tæri við legið mjög vel fyrir honum. Tónlistina segir hann þó koma úr umhverfinu og uppeldinu. „Pabbi minn ýtti mér út í allar óþægilegar aðstæður sem til voru. Ég átti að hætta þessu röfli og spila fyrir framan fjölskylduna á áramótunum en það eru svona stundir sem maður þakkar fyrir núna í dag. Þetta var bara svo pínlegt, allir í fermingarveislu og svo kemur litli strákurinn með klarínettið og byrjar að spila eitthvað glatað. Allir hugsa hvað hann er dúllulegur en innst inni er hann að deyja – þetta var ég í svona tíu ár,“ segir Ari hlæjandi.

Dagurinn í dag er sá sem skiptir máli

„Eina rútínan hjá mér er engin rútína, það er alltaf eitthvað nýtt. Annars svífur maður of mikið um á skýjum og veit ekki neitt,“ segir Ari Bragi um sitt daglega líf en hann hefur þó haft þá reglu að hafa alltaf eitthvað öruggt í hendi. Lífstíll Ara Braga er líflegur og hann einblínir mikið á daginn í dag. Hann segist hafa fundið fyrir 25 ára-krísunni á ákveðnu tímabili, þó kannski ekki eins og allir. „Þegar það er rosalega mikið að gera og maður hefur pening á milli handanna þá er maður fljótur að eyða öllum peningnum, af því að það er það sem maður gerir þegar maður á pening. Ég er mikið að fara í allskonar utanlandsferðir, keppnisferðir og reyni að fjárfesta í tækjum og tólum sem hjálpa mér með tónlistina en þá stend ég kannski uppi með lítinn pening eftir og á sama tíma verður kannski lítið að gera. Það er þá sem maður byrjar að efast um lífstílinn sinn og hvort að það sé einhver framtíð í þessu.“ Hann er þó ánægður með þann stað sem hann er á í dag þrátt fyrir að framtíðin sé óljós með öllu. „Hvað ef síminn hættir að hringja og ég verð ekki eftirsóttur lengur sem tónlistarmaður? Kannski spila ég einhvern veginn rangt úr mínum spilum og einhver kemst að því að ég á fullt af pening á Tortóla og allir verða á móti mér, hvað geri ég þá?“ segir hann glottandi. „Ég sé kollega mína sem eru kannski í svipuðum lífstíl og ég, en þeir eru búnir að koma sér þannig fyrir að þeir eru með meiri fastar tekjur en ég, einfaldlega vegna þess að þeir þurfa að „delivera“. Ég bara þarf ekki að „delivera“ fyrir neinn nema sjálfan mig þannig að þessi 25 ára-krísa breytist örugglega í 30 ára-krísu fyrir mig vegna þess að ég er ennþá það upptekinn að ég hef ekki tíma til að pæla í þessu.“

Þótt framtíð Ara Braga sé óráðin veit hann fyrir víst að hann vill enn spila tónlist og iðka íþróttir á næstu árum. „Hvort ég búi hér heima eða úti er spurning sem ég get ekki svarað sjálfur. Mig langar að fara út en þá er ég að fórna ákveðnu öryggi sem ég hef komið mér upp hérna.“ Hjá Ara Braga felst öryggið í því að síminn hringi og að hann hafi tiltölulega mikið að gera, hann á stað í íslenska landsliðinu í frjálsíþróttum sem og frábæra aðstöðu og styrktaraðila vegna hlaupsins. „Ég kippi svolítið fótunum undan því öryggi ef ég fer, þannig að ef ég færi þá þyrfti samningurinn úti að vera helvíti góður – ég myndi ekki flytja út í 100% óvissu og vona það besta,“ segir Ari að lokum.

Viðtal: Hörn Valdimarsdóttir

Myndir: Håkon Broder Lund og úr einkasafni Ara