„Óperan er ekki snobb“

Barítónsöngvarinn Oddur Arnþór Jónsson skaust upp á stjörnuhimininn eftir að hafa farið á kostum í Don Carlo eftir Verdi, sem var haustuppfærsla Íslensku óperunnar 2014. Hann fer nú með titilhlutverkið í uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni eftir Mozart sem var frumsýnd nú á dögunum. Ritstjóri Stúdentablaðsins ræddi við Odd um námið, söngvaralífið og þrjótinn Don Giovanni yfir kaffibolla á bjartviðrisdegi í Hörpu.

Oddur Arnþór Jónsson ber óumdeilanlega með sér þokka söngvara, hann er vel til fara, ber sig vel og röddin er hljómfögur. Oddur var þó ekki alltaf staðráðinn í að leggja fyrir sig klassískan söng. Áður en hann hóf söngnám í Austurríki hafði hann lokið BA-gráðu í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.

Oddur fann samt sem áður sterka þrá til þess að halda áfram söngnámi sínu en hann lærði söng hjá þeim Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alex Ashworth í Söngskólanum í Reykjavík. „Ég fann bara að ég þyrfti að syngja og vera á sviði, ég hafði þrá og löngun til þess að fara lengra með sönginn. Ég ákvað þess vegna að fara út og sjá hvort að ég myndi komast inn í skóla en ég sótti um í Salzburg, Vín og Graz í Austurríki. Þetta var árið 2009 og ég sá fyrir mér að ef ég myndi ekki komast inn í skóla núna þá þyrfti ég bara að hætta þessu. Þannig að þetta var ákvörðunin sem ég tók. Síðan er þetta búið að vera svona eitt og eitt skref eftir það.“ Oddur komst inn í skólann og fékk metin tvö fyrstu árin í grunnnámi í Mozarteum í Salzburg.

Æfir sig á ferðalögum

Oddur Arnþór er enn búsettur í Austurríki enda mun meira að gera fyrir söngvara á meginlandi Evrópu en hér á landi auk þess sem konan hans starfar í Salzburg. Hann sér ekki fyrir sér að flytja til Íslands í náinni framtíð en telur þó að það sé hægt að hafa lifibrauð sitt af söng hér heima. „Jú, það er alveg hægt að lifa á þessu hér heima. Ef maður ætlaði að vera söngvari á Íslandi þá þyrfti maður þó að vera að kenna og syngja í jarðarförum og stóla á það að fá alltaf verkefni í óperuuppfærslum. Svo koma kannski verkefni í Óperunni þar sem eru engin barítónhlutverk og þá er einfaldlega ekki neitt verkefni fyrir mann. Yfirleitt eru bara settar upp tvær óperur á ári en ég er reyndar búinn að vera heppinn síðustu tvö ár að fá að vera með í öllum verkefnunum. En ég sé það ekki fyrir mér að ég flytji heim.“

Þrátt fyrir að Oddur hafi fastar aðsetur í Salzburg hefur hann undanfarin tvö ár verið á sífelldu flakki. „Ég held reyndar að ég hafi bara minnst verið í Salzburg af öllum stöðum í fyrra. Ég var mjög mikið hérna út af verkefnunum í Íslensku óperunni og var líka mikið á Frakklandi, Spáni og Þýskalandi.“

Flökkulífið er veruleiki sem margir ungir söngvarar kannast við. „Ef þú ert í þessum óperubransa þá ertu annaðhvort fastráðinn við ákveðið leikhús og þá ertu auðvitað bara í þessu eina leikhúsi og syngur kannski 5–8 hlutverk á ári, misstór. Fyrir byrjanda er það einfaldlega mjög illa borgað, þannig að þú þarft eiginlega að velja hvort þú viljir vera í því í kannski tvö ár og fá illa borgað en fá í staðinn þessa miklu reynslu eða þá að gera eins og ég er búinn að vera að gera síðastliðinn tvö ár, að ferðast svona mikið. Ég fæ þó í rauninni alveg sömu reynslu en maður er náttúrulega alltaf að ferðast og sér ekki eins mikið af fjölskyldunni sinni. Þetta er auðvitað ekkert venjulegt fjölskyldulíf.“

Flökkulífið krefst þó ekki eingöngu fjarvista frá fjölskyldu og vinum heldur er einnig krefjandi að þurfa að undirbúa hlutverk og æfa sig á ferðinni. „Maður þarf að finna sinn eigin rytma, nýjan rytma á hverjum stað. Fólk er náttúrulega eins misjafnt og það er margt og sumir þurfa að hreyfa sig mikið á meðan aðrir vilja hvíla sig mikið. Þegar maður er í borg þar sem mikið er um að vera þá hvílist maður kannski ekki mikið. Það getur verið misjafnlega erfitt að finna þennan rytma, sérstaklega þegar þú ert  til dæmis á hótelherbergi þar sem þú getur ekkert æft þig og færð jafnvel ekki æfingaherbergi á vinnustaðnum. Slíkt getur alveg gerst og hefur gerst. Þá er maður eðlilega ekki að æfa sig mikið.“

Harpan ekki sniðin fyrir óperusýningar

Oddur hefur sungið í fjölmörgum óperuhúsum um Evrópu og honum þykir Harpa standast samanburð, sérstaklega hvað varðar hljómburðinn í Eldborgarsalnum. „Mér finnst æðislegt að syngja í Hörpu. Það er samt algjör synd að hún hafi ekki verið kláruð almennilega sem óperuhús og sé í rauninni bara tónlistarhús. Það er ekkert baksvið eða hliðarsvið, ekkert tjald. Þegar sýningu lýkur þá er ekkert tjald sem lokar sýningunni eða opnar sýninguna þegar hún hefst. En hljómburðurinn er mjög góður og auk þess frábært fyrir reksturinn að hægt sé að koma 1600 áhorfendum í salinn.“  

Oddur telur að lítið sé hægt að gera til þess að gera sviðið óperuvænna. „Ég held að það sé erfitt svona eftir á. Þegar verið var að skipuleggja þetta hús [Hörpu] þá voru á sama tíma áform um að byggja óperuhús í Kópavogi. Síðan datt það upp fyrir og þess vegna var ekkert gert ráð fyrir þessari starfsemi hérna.“ Oddur talar einnig um að æfingarými sé af skornum skammti og að finna þurfi einhverja lausn á þeim vanda. „Það eru bæði kostir og gallar við það að vera hér í staðinn fyrir að vera í Gamla bíói.“

Don Giovanni er kynlífsfíkill og brjálæðingur

Wolfgang Amadeus Mozart samdi óperuna um Don Giovanni á ríflega mánuði árið 1787. Don Giovanni er tvímælalaust með þekktari sögupersónum óperubókmenntanna enda annálaður flagari og kvennabósi. „Don Giovanni er stórhættulegur en í rauninni veit hann það ekki sjálfur. Hann fer mjög illa með mjög mikið af fólki, hann fer reyndar illa með allar aðrar persónur í óperunni og notfærir sér allar þær aðstæður sem hann getur. Hann er bara frekar ógeðslegur, þótt hann hafi náttúrulega sinn sjarma. Hann er samt eiginlega bara fáviti,“ fullyrðir Oddur.

Hann segir að persónan eins og hún hafi verið skrifuð upphaflega hafi verið jafnvel grófari en í uppsetningu Íslensku óperunnar. „Eins og óperan er í rauninni skrifuð, 1787, þá væri Don Giovanni hreinlega kynferðisafbrotamaður. Við ætlum ekki alveg að setja hann þannig upp hérna, við getum það ekki á Íslandi 2016, sérstaklega eftir öll þessi mál sem hafa verið að gerast hérna undanfarið. Þannig að við ætlum aðeins að breyta áherslunum…hafa hann meiri flagara og minni nauðgara! Ég ætla svo sem ekkert að segja meira um það, fólk þarf bara að mæta og sjá þetta,“ segir Oddur. Að mati Odds er Don Giovanni gjörsamlega siðlaus. „Það er ekkert gott í honum. Það má eiginlega bara segja að hann sé kynlífsfíkill og brjálæðingur. Hann gerir hvað sem er til þess að komast yfir konur.“

Þótt flagaraháttur og kvensemi Don Giovannis sé um margt miðlægur í óperunni finnst Oddi söguþráðurinn lýsa ákveðinni hningnun aðalpersónunnar. „Í óperunni kemur fram að hann sé búinn að sofa hjá 2065 konum. Atburðarrásin hefst þannig að Don Giovanni er með konu, Donnu Önnu, en ekki er alveg ljóst hvað er að gerast á milli þeirra, þ.e. hvort þau eigi í ástarsambandi eða hvort hann sé hreinlega að nauðga henni. Í kjöfarið kemur pabbi hennar inn á sviðið og skorar á Don Giovanni í einvígi. Don Giovanni drepur föður Donnu Önnu en eftir þetta atvik nær Don Giovanni ekki í neina konu. Hann nær ekki að komast yfir neina konu eftir þetta. Og mér finnst óperan öll snúast um þessa ákveðnu hningnun Don Giovannis, hún snýst í rauninni ekki um hápunkt hans sem flagara heldur í rauninni þetta niðurlag. Maður getur túlkað það þannig að hann deyi í lokin eða að þetta líf hans endi, eða öllu heldur líferni hans,“ útskýrir Oddur.

Menn í líkingu við Don Giovanni til á Íslandi í dag

Oddur telur að auðveldlega sé hægt að heimfæra söguþráð óperunnar upp á aðstæður í nútímanum. „Á þessum tíma er náttúrulega þessi aðall og síðan þjónustufólk, bændur og sveitafólk. Don Giovanni er aðalsborinn þannig að hann er í rauninni í hærri klassa en hann notfærir sér þá stöðu dálítið mikið í óperunni.

Í rauninni væri auðveldlega hægt að nota sama söguþráð í dag. Það væri hægt að hugsa sér bara að hann væri einhver þjóðþekktur einstaklingur sem að er í sambærilegum aðstæðum,“ segir Oddur án þess að nefna nein nöfn. Hann er sannfærður um að enn séu til menn í líkingu við Don Giovanni. „Ég held að þessir karakterar séu alveg til enn þann dag í dag. Meira að segja mjög mikið af þeim, held ég. Menn sem vilja einfaldlega eigna sér allar konur og sofa hjá þeim. En það er náttúrulega líka þetta, þegar strákar sofa hjá mörgum stelpum þá er það ákveðin virðing en þegar stelpur sofa hjá mörgum strákum þá eru þær í rauninni druslur.“ Oddi finnst afar erfitt að ætla að upphefja þennan karakter. „Mér finnst að hann eigi í rauninni að vera þetta illmenni í óperunni.“

Óperan er ekki snobb

Oddur segist ekki telja að áhugi fólks á óperu og klassískri tónlist sé á undanhaldi. „Nei, mér finnst áhuginn ekki fara dvínandi. Ég skynja mjög mikinn áhuga hjá ungu fólki, sérstaklega í Evrópu. Hér heima er líka svo mikill áhugi á leikhúsi. Óperan er auðvitað leikhús líka og á í rauninni að vera þetta fullkomna form: bæði tónlist og leikur í einu. Það er í rauninni þessi nálgun sem ég sé fyrir mér sem óperu.“ Oddi finnst þó eins og ungt fólk á Íslandi sé ennþá umtalsvert duglegra við að fara í leikhús heldur en á óperusýningar eða sinfóníutónleika. „Ég held bara að ungt fólk viti ekki hvað er í gangi hjá okkur, veit fólk yfir höfuð að við séum að setja upp Don Giovanni og um hvað sýningin fjallar? Ég held að þau viti ekki hvað þetta getur verið spennandi. Og þau vita ekki að það er 50% afsláttur fyrir fólk undir 25 ára. Ég held að það séu margir sem halda að þetta sé eitthvað snobb og eigi bara við einhverja elítu, en það er bara ekki þannig,“ segir Oddur.

Við hvetjum nemendur Háskóla Íslands eindregið til þess að nýta sér 50% afslátt fyrir fólk undir 25 ára aldri og upplifa töfra óperunnar. Miðasala er á harpa.is en tvær sýningar eru eftir, í kvöld 13. mars og þann 19. mars. 

Viðtal: Nína Hjördís Þorkelsdóttir

Myndir: Håkon Broder Lund og Jóhanna Ólafsdóttir